Þriðjudagsfyrirlestur: Heiða Björk Vilhjálmsdóttir

Þriðjudagsfyrirlestur: Heiða Björk Vilhjálmsdóttir
Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.

Þriðjudaginn 2. apríl kl. 17-17.40 heldur Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, safnfræðslufulltrúi Listasafnsins á Akureyri, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu undir yfirskriftinni Kata saumakona: Frá hugmynd til sýningar. Aðgangur er ókeypis. 

Í fyrirlestrinum mun Heiða Björk fjalla um listsköpun Katrínar Jósepsdóttur og skoða sérstaklega hvernig nálgast má verk hennar með fræðslu og skapandi starf í huga. 

Katrín Jósepsdóttir (1914-1994) fór snemma að sauma og var því oftast kölluð Kata saumakona, það var ekki fyrr en hún var komin á efri ár sem hún hóf að gera tilraunir í myndlist. Málverk Kötu eru einlæg og gefa sig ekki út fyrir að vera neitt annað en þau eru. Þau flokkast til naívisma og virka sem mikilvæg hvatning fyrir börn og fullorðna, allir geta skapað og útkoman getur komið á óvart. 

Fjallað verður sérstaklega um sýninguna Einfaldlega einlægt sem sett var upp í safnfræðslurými Listasafnsins á síðasta ári. Málverkin á sýningunni komu úr gjöf sem ættingjar Kötu færðu Listasafninu á Akureyri og markmið hennar var tvískipt. Annars vegar að gefa safngestum færi á að virða fyrir sér heildarmynd verka Kötu og hins vegar var sýningin hugsuð sem fræðslusýning, þar sem safngestir fengu tækifæri til fræðslu og sköpunar. Sagt verður frá tilurð sýningarinnar, framsetningu, miðlun og helstu niðurstöðum.  

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Síðasta fyrirlestur vetrarins heldur Guðrún Hadda Bjarnadóttir, handverks- og myndlistarkona, þriðjudaginn 9. apríl.