Takmarkanir

Takmarkanir – samsýning norðlenskra myndlistarmanna
29.05.2021-03.10.2021
Salir 10 11

Þetta er í fjórða sinn sem tvíæringur, sýning á verkum norðlenskra listamanna, er haldinn í Listasafninu á Akureyri. Að þessu sinni var unnið út frá þemanu takmarkanir, sem er augljóslega bein tilvísun í ástandið í heiminum þessi misserin. Listasafnið auglýsti eftir umsóknum um þátttöku í sýningunni og dómnefnd valdi verk eftir 17 ólíka listamenn af þeim 44 sem sóttu um.

Dómnefndina skipuðu Haraldur Ingi Haraldsson, myndlistarmaður og verkefnastjóri Listasafnsins, Hlynur Hallsson, safnstjóri, og Vigdís Rún Jónsdóttir, listfræðingur. Titillinn Takmarkanir er misjafnlega augljós í verkunum en sum þeirra voru unnin sérstaklega fyrir sýninguna. Listræn túlkun á hugtakinu takmarkanir getur svo auðvitað verið afar fjölbreytt.

Gefin er út sýningarskrá og er áhugavert að bera saman sýningarskrár fyrri sýninga til að sjá hvaða þróun er í verkum norðlenskra listamanna og hvort einhver rauður þráður leynist þar. Markmiðið er vissulega að sýna þá fjölbreytni í efnistökum, aðferðum og hugmyndum sem listamenn af svæðinu eru að fást við hverju sinni.

Jón B. K. Ransu, myndlistarmaður og fræðirithöfundur, skrifar í inngangi í sýningarskránni: „Sýningin ber titilinn Takmarkanir og fer fram þegar heimsfaraldur hefur geisað í á annað ár. Á þeim tíma hefur hugtakið „takmörkun“ öðlast áþreifanlega merkingu þar sem fjöldatakmarkanir, nándartakmarkanir og samkomutakmarkanir hafa haft mótandi áhrif á daglegt líf manna. Yfirskrift sýningarinnar vísar þannig til ástands sem hefur skapast vegna heimsfaraldursins en hún leikur líka með hugtakið vegna þess að þemasýningar eru í eðli sínu takmarkaðar. Við getum til að mynda sagt að val listaverka úr umsóknum listamanna byggi á ákveðinni takmörkun og að listamenn merktir svæði eða landshluta sé takmörkun í sjálfu sér.“

Sýningunni Takmarkanir er ætlað að gefa innsýn í þá fjölbreyttu flóru myndlistar sem tengist Norðurlandi og vekja umræður um stöðu norðlenskra listamanna og myndlistar almennt. Tvíæringurinn getur, ef vel tekst til, orðið grunnur rannsókna og sköpunar á sviði myndlistar og um leið hvatning og tækifæri.

Sýningin er ein af sumarsýningum safnsins því eftirspurn er meðal ferðamanna, innlendra og erlendra, eftir myndlist af svæðinu. Safnaráð styrkir sýninguna sérstaklega.

Listamenn:

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir (1963)
Auður Lóa Guðnadóttir (1993)
Árni Jónsson (1989)
Bergþór Morthens (1979)
Brák Jónsdóttir (1996)
Egill Logi Jónasson (1989)
Guðmundur Ármann Sigurjónsson (1944)
Hekla Björt Helgadóttir (1985)
Hrefna Harðardóttir (1954)
Íris Ólöf Sigurjónsdóttir (1958)
Jonna – Jónborg Sigurðardóttir (1966)
Joris Rademaker (1958)
Jón Laxdal Halldórsson (1950)
María Sigríður Jónsdóttir (1969)
Sigurður Mar Halldórsson (1964)
Stefán Boulter (1970)
Tanja Stefanovic (1985)

Sýningarstjóri / Curator: Hlynur Hallsson

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.