Guðjón Gísli Kristinsson

Guðjón Gísli Kristinsson
Nýtt af nálinni
25.03.2023 – 13.08.2023
Salur 09

Markmið Listar án landamæra er að vinna að menningarlegu jafnrétti fyrir fatlaða listamenn. Verkefnið stendur fyrir árlegri hátíð sem sýnir öll listform eftir bæði fatlaða og ófatlaða listamenn. Hátíðin fagnar 20 ára afmæli í ár og er Listasafnið á Akureyri nú þátttakandi í fyrsta sinn.

Guðjón Gísli Kristinsson (f. 1988) sýndi fyrstu útsaumsmyndina sína á sýningu í Sólheimum sumarið 2020 og hefur síðan sýnt á samsýningum Listar án landamæra í Reykjavík og MeetFactory í Prag. Hann vinnur út frá ljósmyndum af raunverulegum fyrirmyndum og teiknar eftir þeim áður en verkið fer á strammann, þar sem það er saumað út af elju og ástríðu. Myndefni Guðjóns Gísla eru ýmist nánasta umhverfi eða íslenskt landslag, en nýlega hefur hann leitað innblásturs í hönnunartímarit og innanhússarkitektúr. Óháð myndefninu má sjá samhljóm í litavali, mynstrum og handbragði.