Þriðjudagsfyrirlestur: Egill Logi Jónasson

Þriðjudaginn 26. mars kl. 17-17.40 heldur Egill Logi Jónasson Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Drengurinn fengurinn. Aðgangur er ókeypis. 

Á fyrirlestrinum mun Egill, einnig þekkur sem Drengurinn fengurinn, sýna myndir af flottasta og dýrasta dótinu sínu og segja stuttlega frá ferli sínum sem one man army og sem half beast, half amazing fyrirbærinu. Mögulega munu málverk og myndbönd koma við sögu. Einnig er aldrei að vita nema að Drengurinn taki lagið. 

Egill Logi Jónasson útskrifaðist með BA frá Listaháskóla Íslands 2016. Síðan þá hefur hann látið verkin tala sem hann sjálfur eða sem Drengurinn fengurinn. Egill vinnur mest með málverk og tónlist, en hann er mögulega afkastamesti tónlistarmaður Íslands og hefur gefið út um 50 plötur. Hann er hluti af listhópnum Kaktus og er með vinnustofu og stúdíó í húsnæði hópsins. Þar rekur hann stúdíóið Dæluna miklu, sem staðsett það sem karlaklósett Ketilhússins var áður.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Síðustu tvo fyrirlestra vetrarins halda Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, safnfræðslufulltrúi, og Guðrún Hadda Bjarnadóttir, handverks- og myndlistarkona.